1.10.2009 | 06:44
Stutt á milli lífs og dauða
Það er langt síðan síðast en ég hef verið alveg svakalega löt við að blogga, maður er alltaf á facebook.
Hér hefur heldur betur mikið gengið á en hún Hanna mín eignaðist sitt þriðja barn 31 ágúst, heilum 6 vikum fyrir tímann. litla stúlkan sem var nefnd Þórey Ingavar flutt upp á vökudeild og dvaldi hún þar fyrstu 11 daga lífs síns og var svo útskrifuð föstudaginn 11 september. Þær mæðgur komu og voru hérna hjá okkur í 2 nætur áður en farið var heim og mikið er ég þakklát fyrir það. Á sunnudeginum fór svo litla fjölskyldan til síns heima og hafði kósý dag og kvöld og allir fóru snemma í háttinn sáttir við lífið og tilveruna.
Klukkan er að verða átta á mánudagsmorgun (14 sept) þegar að síminn hringir hérna hjá mér og ég gleymi sennilega aldrei skelfingarópunum sem ég heyrði þegar að ég tók upp tólið, þegar að hún Hanna mín veinaði hágrátandi að litla Þórey Inga væri dáin........ úff á dauða mínum átti ég von á en litla nýfædda prinsessan sem hafði verið útskrifuð af vökudeild 3 sólarhringum áður sem alheilbrigt barn NEI ég er bara ekki enn að ná þessu þó liðinn sé hálfur mánuður og vildi helst af öllu fara að vakna upp af þessari martröð. Hversu ósanngjarnt og grimmt getur lífið verið ? Lítið barn sem átti allt lífið framundan.
Erfið og þung spor hafa verið gengin og sorgin yfir þyrmandi. Ég segi nú eins og góð kona að vestan sagði nýlega á sínu bloggi " það ættu að vera til lög sem bönnuðu að foreldrar lifðu börnin sín" hvað þá að ömmur og afar lifi barnabörnin, þetta er bara svo röng röðun.
Nú er allt um garð gengið og fékk sú stutta svakalega fallega útför, Sú fallegasta sem ég hef komið í og jafnframt sú sorglegasta. Foreldrar Þóreyjar Ingu hafa staðið sig eins og hetjur í öllu ferlinu og þau sem eru bara á 22. ári, ég er ekki viss um að ég hefði getað staðið mig svona vel. Þau hafa tekið svo rétt á öllum málum sem hafa komið upp í tengslum við þetta ásamt því að sitja fyrir svörum frá stóru stelpunni sinni sem er þriggja ára og sú spyr og spyr án afláts og vill fá að vita allt og kemur með spurningar sem maður á bara engin svör við en einhvernvegin tekst ungu hjónunum alltaf að svara barninu á viðeigandi hátt.
Ég er svo yfirmáta stolt af þeim.
Þau hafa gist hérna hjá okkur síðan að þetta gerðist en stelpan mín hefur ekki treyst sér til að vera heima, þar til í gær þá ákváðu þau að taka af skarið og finnst mér nú heldur tómlegt hérna heima núna. Það er búið að vera yndislegt að fá að hafa þau þenna tíma, algerlega ómetanlegt að geta fengið að gráta saman og deila sorginni en vera jafnframt með litlu gleðigjafana hérna í kringum sig þau Alexöndru og Sævar en þau hafa sko alveg séð fyrir því að maður fær ekkert að leggjast í rúmið í þunglyndi. Lífið heldur áfram.
Á mánudaginn s.l fékk ég svo fréttir af því að gamall vinur hefði fallið frá Júlíus Kristján Thomassen eða Júlli eins og hann var alltaf kallaður. Ég hef að vísu ekki verið í neinu sambandi við hann í mörg ár eða frá því að maður var bara unglingur og svo aftur þegar að ég var farin að búa með Sævari þar sem Sævar og Júlli urðu góðir félagar og brölluðu ýmislegt saman sem ég var þó mis sátt við enda var fíknin ein við völd hjá þeim báðum.
En Júlli var góður drengur og mátti ekkert aumt sjá. Hann var falleg sál sem hefur heyjað langt og erfitt stríð við fíkniefnapúkann. Hann hefur nú fengið hvíldina.
Kæra Ásthildur og fjölskylda vil ég votta ykkur mína dýpstu samúðar á þessum erfiðu tímum.
Nú tekur við hjá mér heilmikið dýrastúss en það er hunda sýning á komandi helgi og ætla ég að reyna að sýna hana París sjálf :) og svo helgina þar á eftir verðu Kattasýning svo það verður nóg að gera.
Athugasemdir
Elsku Sigga mín.
ég votta ykkur innilega samúð mína.
Já hún Hanna þín er yndisleg stelpa
Kærleikskveðjur.Vallý
Valdís Skúladóttir, 13.10.2009 kl. 10:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.